Hitaveitur víða um land hafa undanfarna mánuði átt í nokkrum vandræðum með að útvega heitt vatn að sögn stjórnenda veitufyrirtækja sem Viðskiptablaðið ræddi við. Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, segir orsök vandamálsins margþætta.

Sigurður bendir á að íslenskt samfélag sé í stöðugri uppbyggingu og íbúum fari fjölgandi ár frá ári. Samhliða því fari varmaorkunotkunin stigvaxandi. Með árunum verði jarðhitakostir sífellt kostnaðarsamari.

„Heita vatnið hefur hingað til verið ódýrt og kostar til dæmis hver kílóvattsstund af varmaorku komin til neytanda aðeins 1/6 af raforkuverði. Við höfum því umgengist auðlindina sem óþrjótandi ódýran kost sem er ekki endilega raunin og mættum ganga um hana með ábyrgari hætti og nýta varmann betur.“

Verð muni líklega hækka
Sigurður segir uppsafnaða viðhaldsþörf vera víða í veitukerfum landsins. „Eldri lagnir eru í sumum tilfellum verr einangraðar og geta verið orðnar lekar. Þetta veldur einnig orkutapi og -sóun. Að sama skapi hefur tíðkast að teygja hitaveitukerfin mjög víða innanlands  og í dreifðari byggðum verður sums staðar mikil orkusóun í lögnum þar sem lagnir eru oft langar og lítið rennsli sem veldur kólnun.

Það er því spurning hvort við ættum ekki að horfa á fleiri lausnir í þessum málum, eins og t.d. varmadæluvæðingu í dreifbýli fremur en að vera með hitaveitur. Það er verkefni sem stjórnvöld mættu koma að með kröftugri hætti.“

Veitufyrirtækin hafi sjálf þurft að standa straum af kostnaði sem fellur til við jarðhitaleit og kostnaður þess verið sífellt meira íþyngjandi fyrir þau.

„Á sama tíma hefur mikil uppbygging verið í dreifkerfum til að takast á við stækkandi samfélag sem einnig eru kostnaðarsamar aðgerðir. Þessi kostnaður skilar sér út í verðlagið og ekki ólíklegt að heita vatnið komi til með að hækka í náinni framtíð til að fyrirtækin standi undir áframhaldandi uppbyggingu og orkuöflun.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .