Fjárfestar telja 40% líkur á því að Englandsbanki lækki vexti snemma á næsta ári. Þetta er fullyrt í breska blaðinu The Daily Telepgraph.

Þessar væntingar koma ekki til af góðu. Þrátt fyrir að verðbólga mælist nú 3,8% og sé þar með vel yfir 2% verðbólgumarkmiðum Englandsbanka óttast menn að kólnunin í breska hagkerfinu verði það hröð að samdráttur verði meiri ógn en undurliggjandi verðbólga. Fram kemur í frétt Telegraph að mikil lækkun á hlutabréfamörkuðum og ört hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu hafi leitt til þess að afstaða fjárfesta hafi breyst og þeir hafi nú meiri áhyggjur af fyrirsjáanlegum samdrætti.

Vaxandi svartsýni

Undanfarna tvo mánuði hafa fjárfestar frekar búist við að Englandsbanki hækki vexti en lækki. En hinsvegar hafa óveðursskýin hrannast upp yfir Bretlandseyjum og sífellt berast fréttir sem gefa til kynna verulegan samdrátt. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á þriðjudag þá er það hald Mervyn King, seðlabankastjóra, að það sé „skýr áhætta“ að það hægi svo á hjólum efnahagslífsins að verðbólga fari niður fyrir 2% til meðallangs tíma litið. Öllum má vera ljóst að þetta er ekki sú leið sem Englandsbanki vill fara til að ná markmiðum sínum.

Svartsýni manna fyrir hönd breska hagkerfisins hefur verið knúin áfram af slæmum fréttum Vestanhafs og frá meginlandinu. Í gær lýsti Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, því yfir að bandaríska hagkerfið stæði frammi fyrir „fjölda vandamála“ og að sama skapi hefur væntingavísitalan í Þýskalandi – stærsta hagkerfi Evrópu – aldrei verið lægri.