Krónan hefur veikst um sjö prósent frá áramótum og um 20% ef miðað er við marsmánuð þegar hún var hvað sterkust á árinu. Þegar þetta er skrifað stendur gengisvísitalan í 233 stigum. Krónan hefur þar með sjaldan verið veikari frá bankahruninu.

Róbert Helgason, sérfræðingur hjá rekstrarfélaginu GAM Management hf., bendir á, þegar hann er spurður út í krónuna, að mikill gjaldeyrir liggi inni á gjaldeyrisreikningum bankanna. Gjaldeyrir sem skili sér til landsins sé með öðrum orðum ekki skipt í krónur. „Það er skilaskylda en ekki skiptiskylda," segir hann.

Róbert segir að á meðan Seðlabankinn gefi sífellt í skyn að bráðum verði losað eitthvað um gjaldeyrishöftin hafi útflytjendur tilhneigingu til þess að geyma gjaldeyrinn í þeirri von að fá hagstæðara gengi þegar höftin losna. „Af hverju ætti fólk að selja evruna núna ef það getur selt hana á hærra gengi eftir kannski þrjá, sex eða níu mánuði?" segir hann.

Í Viðskiptablaðinu er talað um að innflytjendur veðji á veikingu krónunnar en ekki útflytjendur. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.