Umtal þess efnis að Kaupthing Singer & Friedlander væri að loka stöðum mjög skuldsettra viðskiptavina hafa stuðlað að lækkun á ýmsum félögum í Bretlandi. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings í Bretlandi, sagði í samtali við Daily Telegraph að nú væri unnið að því að loka stöðum á skynsamlegan og yfirvegaðan hátt. Times greinir frá því í morgun að brugghúsin Marston‘s og Greene King hafi lækkað snarpt í gær vegna þessara tíðinda, en brugghúsin eru meðal viðskiptavina Kaupþings.

Robert Tchenguiz er sá viðskiptavinur Kaupþings Singer & Friedlander sem er með stóra stöðu í félaginu Mitchell & Butlers með fjármögnun Kaupþings. Bréf félagsins lækkuðu mikið eftir að fréttist að Kaupþing væri að krefjast meiri fjár til að halda stöðum sem þessum opnum og minnka áhættu sína.

Skuldatryggingaálag Kaupþings tvöfaldaðist í gær. Times greinir frá því að fjárfestar telji því að hætta á greiðslufalli bankans hafi aukist. Miðlarar sem buðust til að ábyrgjast skuldir íslenska ríkisins kröfðust einnig fyrirframgreiðslu – hið sama var upp á teningnum skömmu fyrir gjaldþrot Lehman Brothers. Times greinir frá því að Kaupþing hafi sagst ekki þurfa sambærilega hjálp og Glitnir.