„Þarna er fólk komið verulega erfiða stöðu og þeim settir afarkostir sem eru augljóslega mjög ósanngjarnir. Málið vekur spurningar um bæði réttarstöðu fólksins og hvort það hafi verið upplýst um áhættuna sem fylgir viðskiptum eins og þessum. Ég tel næsta víst að mikið vanti upp á hvað bæði þessi atriði varðar.“

Þetta segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við Viðskiptablaðið þegar mál kaupenda á íbúðum í fjölbýlishúsi við Gerplustræti í Mosfellsbæ eru borin undir hann. Viðskiptablaðið fjallaði um málið í gær, en fimmtán mánuðum eftir að afhenda átti íbúðirnar en framkvæmdum enn ólokið og ekki útséð með hvort þeim ljúki í bráð. Uppbyggingin er nú þegar komin 300 milljónum króna fram úr áætlun og ljóst að félagið sem að verkinu stendur er gjaldþrota. Kaupendurnir standa frammi fyrir vali um að greiða afsalsgreiðslu og fyrirgera rétti sínum til bóta vegna tafa eða tapa því fé sem það hafi nú þegar lagt til kaupanna.

„Þetta er í annað sinn á þessu ári sem við lesum í fjölmiðlum um fólk í þessari stöðu, en hér rímar margt við mál Félags eldri borgara og kaupenda íbúða félagsins við Árskóga frá því í sumar. Réttarstaða kaupenda í báðum tilfellum virðist afar bágborin og þeim boðnir afarkostir þar sem hvorugur kosturinn er góður.

Það aftur vekur upp spurningar um hvort fólk hafi verið nægilega vel upplýst um áhættuna sem felst í fasteignaviðskiptum þar sem íbúðirnar eru ekki byggðar þegar gengið er frá kaupunum. Margt bendir til þess að hér skorti verulega á. Fyrir það fyrsta er kaup á fasteign stærsta og mikilvægasta fjárfesting sem fólk gerir á ævinni. Venjulegt fólk hefur ekki borð fyrir báru til að tefla í tvísýnu þegar jafnmikið er undir. Eru fasteignasalar meðvitaðir um þetta og hvílir ekki á þeim skylda til að gera væntanlegum kaupendum grein fyrir áhættunni,“ segir Breki Karlsson, sem hvetur fólk sem lendir í álíka vandræðum til þessa að hafa samband við Neytendasamtökin.

„Við getum að minnsta kosti verið fólki innan handar við að skilja stöðu sína og leita réttar sín. Sömuleiðis hjálpar það okkur við að finna lausnir og knýja fram úrbætur þannig að koma megi í veg fyrir að álíka mál henti aðra í framtíðinni.”