Nýr dómur Mannréttindadómstóls Evrópu vekur upp spurningar um hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum samningsins í nýjum dómum í Hæstarétti og í héraði, að sögn lögfræðinga sem Viðskiptablaðið ræddi við.

Þann 20. maí síðastliðinn féll dómur hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í máli Finnans Mikko Tapani Nykänen gegn finnska ríkinu. Eftir sérstaka skoðun skattayfirvalda í fyrirtæki Nykänens kom í ljós að hann hafði vantalið arðgreiðslur til sín á skattframtali fyrir árið 2003. Í kjölfarið var honum gert að greiða rétta fjárhæð að viðbættu álagi. Nykänen kærði þessa ákvörðun til æðra stjórnvalds, sem staðfesti álagningu álagsins og dómstóll komst að sömu niðurstöðu í maí 2008.

Þann 19. ágúst 2008 var gefin út ákæra á hendur Nykänen vegna sömu brota og svo fór að hann var dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar og til greiðslu 12.420 evra til finnska ríkisins. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er sú að í þessu máli hafi Nykänen tvisvar sinnum verið refsað fyrir sama brot, sem er brot gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Tveimur dögum síðar var Ragnar Þórisson dæmdur í Hæstarétti sekur fyrir að hafa ekki talið rétt fram fjármagnstekjur sínar vegna tekjuársins 2006. Í einföldu máli komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Ragnari hefði verið óheimilt að draga frá hagnaði af framvirkum skiptasamningum tap af sams konar samningum eða beinan kostnað við öflun teknanna. Með öðrum orðum bæri honum að greiða skatt af vergum hagnaði sínum. Bjarni Ármannsson hefur einnig verið dæmdur sekur um sambærilegt brot og von er á dómum í fleiri slíkum málum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .