Vel á annað hundrað manns hafa skráð sig í Framsóknarflokkinn á síðustu tveimur vikum, að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, framkvæmdastjóra flokksins.

Flokksþing framsóknarmanna verður haldið næstu helgi. Þar verður kosið um nýja forystu og hafa fimm boðið sig fram til formennsku. Sigfús Ingi segir ekkert óeðlilegt að nýskráningum fjölgi í aðdraganda flokksþings. „Félagsmönnum fjölgar oft í aðdraganda slíks þings," segir hann.

Frestur félaga víða um land til að tilkynna um fulltrúa á flokksþingið rann út í dag. Alls 1.003 eiga seturétt á þinginu en talan miðast við fjölda félagsmanna mánuð fyrir þingið.

„Við erum að fara yfir kjörbréfin," segir Sigfús Ingi. „Þetta mun liggja fyrir síðdegis en heimtur eru góðar."

Engin eftirmál af fundinum í Reykjavík

Mikill hiti varð á fundi Framsóknarfélags Reykjavíkur í byrjun vikunnar en þar var tekist á um val á fulltrúum félagsins á flokksþingið.

Guðlaugur Sverrisson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, segir að engin eftirmál verði af fundinum, enda hafi hann endað í sátt, þrátt fyrir átök.