Ársuppgjör Kaupþings, sem sýndi 9,9 milljarða króna hagnað til hluthafa á fjórða fjórðungi ársins 2007, er vel ásættanlegt að sögn Hermanns Þórissonar, sérfræðings á greiningardeild Landsbankans.

„Hagnaður fyrir skatta er reyndar talsvert undir væntingum mínum, en hagnaður eftir skatta er vel yfir því sem ég átti von á, þar sem um er að ræða tekjufærsla frá skatti,“ segir hann. „En grunnafkoma bankans er nánast að fullu í takti við það sem ég átti von á, en það eru þær tekjur sem skipta mestu máli,“ segir hann.

„Ég tel því að þetta uppgjör sé vel ásættanlegt, þrátt fyrir að gengistap sé nokkru meira en ég átti von á. Í ljósi markaðsaðstæðna er þetta gott,“ segir hann.

Aðspurður játar Hermann því að í ljósi viðburða undanfarinna daga sé útlitið gott hjá Kaupþingi. „Það kemur fram að lausafjárstaða bankans er góð og innlán eru að vaxa. Í fréttinni er tekið fram að fyrirtækið ætlar að viðhafa nokkurt kostnaðaraðhald á árinu, til að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum, þannig að ég held að útlitið sé bara ágætt fyrir Kaupþing,“ segir Hermann Þórisson.