Vél frá flugfélaginu Air Atlanta Icelandic, sem er í eigu Avion Group, er á leið til Damaskus á Sýrlandi að sækja Íslendinga og aðra Norðurlandabúa, segir í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að vélin mun leggja af stað frá London rúmlega tíu í kvöld og áætlað er að hún lendi rétt fyrir hálf þrjú í nótt og haldi aftur frá Damaskus rétt fyrir fjögur. Vélin lendir í Kaupmannahöfn um átta í fyrramálið, eða um sex að íslenskum tíma.

Íslendingarnir þrír, sem voru á vegum Air Atlanta Icelandic í Beirút, koma til með að fljúga með vélinni líkt og aðrir Íslendingar sem hafa þurft að flýja átökin í Líbanon. Einnig verða með vélinni farþegar frá hinum Norðurlöndunum.

Vél Air Atlanta Icelandic, sem er af gerðinni Boeing 747-300, tekur rúmlega 450 manns í sæti. Um borð í vélinni er áhöfn á vegum Excel Airways, dótturfélags Avion Group.