Það er í mörgu að snúast fyrir Eyþór Arnalds, en hann er bæði framkvæmdastjóri fjárfestingar- og þróunarfélagsins Strokks, sem og formaður bæjarráðs Árborgar. Strokkur fjárfesti í aflþynnuverkefni Becromal á Akureyri og segir Eyþór að eftir nokkur erfið ár horfi nú til betri vegar þar.

„Niðursveiflan í Evrópu hafði talsverð áhrif á reksturinn hjá okkur, enda stöðvaðist allur hagvöxtur þar um tíma. Núna er einhver hreyfing komin á hagkerfi Evrópu, en álfan er enn langt frá því búin að jafna sig á skuldakreppunni sem skall á árið 2010. Stækkun verksmiðjunnar hefur verið í bið af þessum sökum.“ Aflþynnuverksmiðjan er að sögn Eyþórs einkennandi fyrir þau verkefni sem Strokkur er í, að því leyti að þar er um að ræða orkufrekan iðnað, sem skapar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.

„Í haust hófst framleiðsla í GMR, stálbræðslu okkar á Grundartanga, en þar er rafknúinn ljósbogaofn notaður til að bræða niður stál og steypa á ný. Helstu viðskiptavinir okkar eru álverin, en við endurvinnum stál frá þeim, bræðum niður og steypum í sérhæfð mót svo þau getið nýtt stálið aftur í sínum rekstri. Við framleiðum enn fremur til útflutnings, en samningarnir við álverin þrjú eru hryggjarstykkið í starfseminni í upphafi.“ Eyþór segir að hingað til hafi stálið verið flutt inn og út úr landinu með neikvæðum áhrifum á gjaldeyrisjöfnuð.

„Þetta mun hafa mjög jákvæð áhrif á gjaldeyrisjöfnuðinn, eins og önnur verkefni okkar.“ Þá stendur Strokkur að byggingu kísilmálmverksmiðju ThorSil ásamt samstarfsaðilum, en líkur eru á því að það verkefni fari í framkvæmdafasa á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .