Undirtektir í skuldabréfaútboði Reykjavíkurborgar í fyrradag voru mun meiri en í útboðinu á undan, og getur borgin vel unað við niðurstöðuna að mati okkar, segir greining Íslandsbanka í Morgunkorni í dag. Í skuldabréfaflokkinn bárust tilboð að nafnvirði 2,9 milljörðum á kröfubilinu 3,89%-4,07%. Tilboðum var tekið að náfnvirði 1,4 milljarðar króna á ávöxtunarkröfunni 3,9%.

Flokkurinn er 13,2 milljarðar að stærð eftir útboðið, en var 9,3 milljarðar í byrjun ársins. Í Morgunkorni kemur fram að enn vantar 2,4 milljarða upp á útgáfu ársins miðað við áætlun. „Miðað við undirtektirnar í fyrradag ætti ofangreint markmið að nást nokkuð auðveldlega, enda er ávöxtunarkrafa RVK-bréfanna enn töluvert yfir 3,5% viðmiði lífeyrissjóðanna og fátt um aðra vænlega fjárfestingarkosti af svipuðu tagi á innlendum markaði þessa dagana,“ segir greining.