Kínverskur geimfari hefur nú sett nafn sitt á spjöld sögunnar með því að verða fyrstur sinnar þjóðar til þess að fara í geimgöngu.

Kínverska ríkissjónvarpið sýndi frá því beint þegar orustuflugmaðurinn og geimfarinn Zhai Zhigang tók sín fyrstu skref frá geimfari sínu sem nú er á sporbraut um jörðu. Geimgangan stóð í stundarfjórðung og er hún liður í áætlun Kínverja um að byggja geimstöð, á sprobraut jarðar, á næstu árum.

Tveir geimfarar, samstarfsmenn Zhai, voru um borð í geimfarinu Shenzhou VII á meðan Zhai fór í tímamótaferðina.

Kínverjar verja nú miklu púðri í geimferðaráætlanir sínar en auk fyrrnefndrar geimstöðvar þá stefna þeir á að senda mann á tunglið innan fárra ára.