Íslandsbanki hefur í fyrsta sinn gefið út skuldabréf í norskum krónum og nemur fjárhæðin 850 milljónum norskra króna eða rúmum 8,7 milljörðum íslenskra. DnB Nor Markets og Pareto Securities höfðu umsjón með útgáfunni.

Skuldabréfin bera breytilega vexti og eru í þremur flokkum til 2, 3 og 5 ára. Tveggja ára útgáfan nemur 250 milljónum norskra króna og 5 ára útgáfan nemur 500 milljónum norskra króna. Báðar útgáfurnar eru að fullu seldar. Fjárhæð 3 ára útgáfunnar nemur nú 100 milljónum norskra króna, en búast má við að að bætt verði við útgáfuna fyrir greiðsludaginn 17. desember nk. til að mæta aukinni eftirspurn fjárfesta.

Eitt af meginmarkmiðum skuldabréfaútgáfunnar var að kynna Íslandsbanka fyrir norskum fagfjárfestum í ljósi aukinna umsvifa bankans í Noregi. Útgáfunni var vel tekið og voru margir helstu fjárfestar landsins á meðal kaupenda. Íslandsbanki áformar reglulega útgáfu á skuldabréfum í Noregi í framtíðinni.

Skuldabréfin verða skráð í kauphöllinni í Ósló.