Franska og spænska ríkið voru með skuldabréfaútboð í dag, sem tókust betur en sambærileg útboð hafa tekist hjá þeim undanfarnar vikur. Að minnsta kosti tókst ríkjunum báðum að ná markmiðum hvað varðar fjárhæð seldra bréfa, en líklega hefðu þau kosið að fá betri kjör. Spánn seldi fimm ára skuldabréf fyrir 3,75 milljarða evra og segir í frétt Bloomberg að ávöxtunarkrafa á fimm ára bréf hafi ekki verið hærri síðan 2005.

Franska ríkið seldi skuldabréf fyrir 4,3 milljarða á ávöxtunarkröfunni 3,18%, sem er lægra en í útboðinu þann þriðja nóvember síðastliðinn. Ávöxtunarkrafa á tíu ára frönsk bréf lækkaði um 27 punkta í 3,12% og er það mesta lækkun á jafnskömmum tíma í tuttugu ár. Krafan á tíu ára spænsk bréf lækkaði um 21 punkt í rúm sex prósent. Hæst fór krafan í 6,78% þann 17. nóvember.