Átjánda Landsmóti hestamanna lauk í dag en það var haldið á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Á heimasíðu mótsins segir að milli 13 og 14 þúsund manns hafi verið á svæðinu þegar best lét.

Þar segir jafnframt að hestakostur á Landsmóti hafi að líkindum aldrei verið jafn góður. Mátti sjá vel þjálfaða gæðinga í öllum flokkum.

Ör þróun hefur  verið í hestaíþróttum á Íslandi síðustu ár og íþróttin hefur verið færð til nútímans. Miklar framfarir hafa verið í reiðmennsku og hefur henni fleygt fram.

Mikil viðskipti fara fram á hrossum ár hvert og hefur Landsmót hestamanna virkað sem markaðsgluggi fyrir ræktendur. Í úttekt sem birtist í Viðskiptablaðinu nýlega segir að viðskipti með íslenska hesta nemi miljörðum ár hvert. Aðallega er selt til Norðurlandanna.