Nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis setja spurningarmerki við kostnað við rekstur Lindarhvols, sem stofnaður var um sölu eigna sem íslenska ríkið fékk sem hluta af stöðugleikaframlögum fallinna fjármálafyrirtækja. Lindarhvoll greiddi að meðaltali þremur stjórnarmönnum 470 þúsund krónur í laun á mánuði árið 2016. Alls námu laun til stjórnar Lindarhvols 12,15 milljónum króna og launatengd gjöld námu 1.947 þúsund krónum samkvæmt ársreikningi félagsins. Lindarhvoll var stofnaður 15. apríl 2016 og starfaði því í átta og hálfan mánuð árið 2016. Þá fékk lögmannsstofa Steinars Þórs Guðgeirssonar, Íslög, 38,8 milljónir króna greiddar vegna vinnu fyrir Lindarhvol. Lindarhvoll samdi við Íslög í lok apríl 2016 og nema greiðslurnar til lögfræðistofunnar því að meðaltali tæplega 5 milljónum króna á mánuði. „Þetta hljómar sem miklir peningar á hendur fárra sem eru að höndla með sölu á eignum okkar allra og gríðarlega hagsmuni ríkisins,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd.

„Ég mun allavega beita mér fyrir því eftir kosningar að söluferli á eigum ríkisins í gegnum Lindarhvol verði hafið yfir allan vafa, sem og útvistun verkefna og samningar við ráðgjafafyrirtæki og að þeir samningar séu gerðir með gagnsæi, hagkvæmni og jafnræði að leiðarljósi,“ segir Rósa.

Stjórnarformaður Lindarhvols er Þórhallur Arason, sem nýverið lét af störfum sem skrifstofustjóri hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Aðrir stjórnarmenn eru Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands, og Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.

„Ef maðurinn gerir ekkert annað en að sitja þarna í stjórnarformennsku ætla ég ekki að býsnast yfir því. Ég hef aldrei býsnast yfir stjórnarlaunum ef menn vinna vinnuna sína,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Hins vegar ef lögmaðurinn sem fylgist með Arion banka er þarna í fullri vinnu þá er þetta dálítið vel í lagt,“ segir Vilhjálmur. Meðal verkefna sem Steinari Þór hefur verið falið er að hafa eftirlit með sölu Kaupþings á Arion banka fyrir hönd ríkisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .