Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hefur boðað til hluthafafundar á miðvikudaginn 14. júní þar sem fyrirhuguð sameining félagsins við Fossa fjárfestingarbanka verður kynnt og kosið verður um tillögu um hækkun hlutafjár í tengslum við samrunann.

Í kynningu sem VÍS birti í gærkvöldi kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að langtíma arðsemismarkmið félagsins hækki úr 1,5 krónum, sem jafngildir um 15% arðsemi eigin fjár, í yfir 2,5 krónur á hlut, sem jafngildir yfir 20% arðsemi eigin fjár leiðrétt fyrir útgáfu nýrra hluta. Bætt arðsemi komi til vegna samlegðar og möguleika til að hraða uppbyggingu fjárfestingarbanka og eignastýringar.

Auk samlegðaráhrifa, sem áætlað er að hljóði upp á 650-750 milljónir króna á ári eftir 2025, aukins fjárhagslegs styrks, og breiðara vöruframboðs telja fyrirtækin að sameinað félag sé „vel í stakk búið til frekari ytri vaxtar á fjármálamarkaði“.

„Síbreytilegt samkeppnisumhverfi býður upp á umtalsverð tækifæri til ytri vaxtar í fjármálastarfsemi t.d. í eignastýringu og útlánastarfsemi,“ segir í kynningunni. Þá séu innviðir sameinaðs félags vel fallnir til ‏þess að taka við nýjum rekstrareiningum án teljandi kostnaðaraukningar.

400 milljóna víkjandi fjármögnun

VÍS tilkynnti fyrst um um samrunaviðræður við Fossa þann 14. febrúar síðastliðinn. Kaupsamningur var undirritaður þann 5. maí. Áætlað er að skilyrði kaupsamnings verði uppfyllt á komandi mánuðum en eigi síðar en í árslok 2023.

Viðskiptin fela í sér að VÍS eignast Fossa í skiptum fyrir 245 milljónir nýja hluti í VÍS, eða sem nemur 12,6% eignarhlut eftir hlutafjáraukningu. Markaðsvirði þess hlutar nemur 4,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa VÍS.

Í kynningunni kemur fram að VÍS muni veita Fossum allt að 400 milljóna króna víkjandi fjármögnun í kjölfar hluthafafundar „til að tryggja áframhaldandi vöxt félagsins“. Fjármögnuninni verður breytt í hlutafé við fullnustu kaupsamnings.

Stefnt að því að VÍS fari inn í nýtt móðurfélag

Í greinargerð stjórnar með tillögum fyrir hluthafafundinn segir að með kaupum á Fossum og stofnun SIV eignastýringar hafi félagið tekið skref í átt að markmiði sínu um að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt.

Stjórn VÍS segir að í þeirri vinnu sem átti sér stað í tengslum við samningaviðræðurnar var skoðað hvernig framtíðarskipulagi samstæðu verði best hagað m.t.t. vaxtar, stjórnarhátta og hagræðingar. Skoðaður hafi verið fýsileiki þess að tryggingastarfsemi félagsins verði færð í dótturfélag. Horft er til þess að slíkt skref verði tekið á síðari tímapunkti.

Tekjur Fossa þrefaldist á þremur árum

Í kynningunni segir að fjárfestingarbankastarfsemi vaxi hraðast á fjármálamörkuðum, bæði alþjóðlega og hérlendis. Sameinað félag sé í kjörstöðu til að sækja á þann markað sem hafi skapast á milli stórra viðskiptabanka og smærri og sérhæfðari þjónustuaðila.

Tækifæri með samrunanum felist m.a. í að vaxandi þörf sé fyrir markaðslausnir í fjármögnun fyrirtækja og sveitarfélaga. Þá sé eftirspurn eftir nýjum fjárfestingarlausnum, m.a. vegna breytinga á séreignarsparnaði, og sóknarfæri í aukinni erlendri þátttöku á fjármálamarkaði.

Fossar urðu á síðasta ári fjárfestingarbanki eftir að hafa fengið starfsleyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Efnahagsreikningur fyrirtækisins blés út í kjölfarið en eignir þess námu 7,4 milljörðum króna í árslok 2022 samanborið við 1,2 milljarða árið áður. Markmið Fossa er að eignirnar verði orðnar yfir 30 milljarðar árið 2025.

Jafnframt stefnir fjárfestingarbankinn á að tekjurnar tæplega þrefaldist á þremur árum og verði yfir 3,5 milljarðar árið 2025 en til samanburðar þá voru þær um 1,15 milljarðar í fyrra.

Árleg samlegð verði 650-750 milljónir á ári

VÍS og Fossar áætla að samlegðar áhrif verði um 650-750 milljónir króna á árið og komi inn að fullu eftir árið 2025.

Gert er ráð fyrir því að árleg kostnaðarsamlegð geti numið 350-450 milljónum á ári. Það felist m.a. í kostnaðarsparnaði og fjárfestingum sem félögin hefðu þurft að leggja í á næstu tveimur árum verði ekki af samruna. Þá sé gert ráð fyrir lægri fjármögnunarkostnaði fyrir fjárfestingarbanka með samrunanum.

Gert er ráð fyrir því að tekjusamlegð geti orðið 300 milljónir króna á ári en félögin telja að töluverð tekjusamlegð felist í krosssölu milli rekstrareininga.