Eldrauðri Airbus A321 vél Play Air stendur nú á Reykjavíkurflugvelli og blasir við út um glugga höfuðstöðva Icelandair. Skammt frá stendur yfir gleðskapur aðstandenda félagsins þar sem jómfrúarferðinni til London, sem farin var í gær, og nýafstöðnu hlutafjárútboði félagsins er fagnað.

Líkt og sagt var frá fyrr í dag bárust tilboð fyrir 33,8 milljarða króna í nýja hluti í félaginu en útboðið var liður í skráningu félagsins á First North markaðinn. Þátttakendur í útboðinu voru um 4.600 talsins en alls voru hlutir fyrir 4,3 milljarða króna í boði. Eftirspurnin var því um áttfalt meiri en framboðið.

Það gefur auga leið að helsti keppinautur Play, af félögum sem eru heimilisföst á Íslandi, verður Icelandair. Sem kunnugt er safnaði Icelandair einnig nýju hlutafé síðasta haust en þar voru 23 milljarðar boðnir til kaups en áskriftir, frá um níu þúsund aðilum, bárust fyrir 37,4 milljarða. Þá var tilkynnt í fyrradag að sjóðurinn Bain Capital hygðist kaupa 16,6% hlut í félaginu fyrir um átta milljarða króna.

Þó skammt sé liðið á æviskeið Play þá má álykta að einhver rígur sé farinn af stað og tæplega tilviljun að vélinni hafi verið komið fyrir á þessum stað í aðdraganda teitisins. Í boðsbréfi fyrir partíið segir enda að „sérstakur heiðursgestur og líklegur senuþjófur [verði] ný og fagurrauð Airbus A321 vél Play“.