Hæstiréttur staðfesti þann 20. desember sl. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. desember 2006 í máli þrotabús Véla og Þjónustu hf. gegn Vélaborg ehf. (VB ehf.) og Gunnari Viðari Bjarnasyni aðaleiganda þess. Er svokölluðum “gjafagerningi” rift og dæmdu gert að greiða þrotabúinu rúmar 26 milljónir króna með dráttarvöxtum frá 28. júní 2005 og 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Áður hafði Héraðsdómur dæmt stefndu til að greiða 5,9 milljónir í málskostnað fyrir Héraðsdómi og var þar líka staðfest kyrrsetningaraðgerð á fasteigninni Óseyrarbraut 9-11 í Hafnarfirði frá 29. maí 2006 til tryggingar greiðslu.

Málsatvik eru þau að fyrirtækið V&Þ hf. var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004. Daginn áður, eða þann 3. september hafði félagið skipt um nafn, en það hafði áður heitið Vélar og þjónusta hf.

Skömmu fyrir gjaldþrotið, eða þann 26. ágúst 2004, var gerður samningur um sölu á vörubirgðum Véla og þjónustu hf. til félagsins Táar ehf. Er þessi samningur nefndur “gjafagjörningur” í dómi Hæstaréttar.

Tá ehf. skipti síðan um nafn þann 3. september 2004 og varð Vélar og þjónusta ehf. Þann 3. október var nafninu breytt á ný í Vélaborg ehf. sem var í eigu sömu eigenda. Þá hafði KB-Banki gert harðorðar athugasemdir við alla þessa gjörninga en Kaupþing Búnaðarbanki hf., var aðalkröfuhafi í þrotabúið. Hafði bankinn átt veð í öllum vörubirgðum og útistandandi viðskiptakröfum V&Þ hf.

Með samkomulagi Kaupþings Búnaðarbanka hf., þrotabús V & Þ hf. og Rekstarfélagsins Vélar og þjónusta ehf. 9. september 2004 var ákveðið að RVÞ yfirtæki rekstur þrotabúsins.  Með samningi sömu aðila 29. september 2004 var m.a. afráðið að þrotabúið afhenti KB-banka hf. sem veðhafa allan vörulager þrotabúsins.

Fyrir Héraðsdómi var upplýst að Vélaborg var þá í 50% eigu Hverár ehf. og  50% eigu Táar ehf. sem Gunnar og eiginkona hans áttu til helminga. Eftir hlutafjáraukningu í Vélaborg 2006 var Gunnar orðinn 50% eigandi á móti Hveraá þar sem hann átti líka 20% hlut.

Samkvæmt mati á seldum vörubirgðum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var það mat talið sanngjarnt vera á rúmar 71,2 milljónir króna með virðisaukaskatti.

Í dag eru starfandi hlið við hlið við Járnháls í Reykjavík tvö fyrirtæki sem spruttu út úr þessum gjörningum. Annarsvegar er Vélar & Þjónusta ehf. og síðan er Vélaborg á næstu lóð sem bæði stafa á sama vettvangi sem söluaðilar vinnuvéla, tækja og búnaðar fyrir verktaka og landbúnað.