Fyrirtæki sem flytja inn vinnuvélar hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum í nær algjöru markaðshruni síðan 2008. Vélaborg er þar engin undantekning en með innkomu erlendra hluthafa hefur dæmið gjörbreyst.

„Við fengum erlendan hluthafa inn í nýtt fyrirtæki með okkur sem tók yfir landbúnaðardeildina sem Vélaborg var með. Nýja fyrirtækið heitir VB Landbúnaður ehf. og er einskonar systurfélag Vélaborgar. Það félag fékk erlent hlutafé og er búið að kaupa hér út úr Vélaborg allt sem tengdist landbúnaðargeiranum. Það hefur styrkt okkur mjög mikið og má segja að hluta af þeim fjármunum hafi verið ráðstafað til lagerkaupa úr gjaldþrota fyrirtækjum," segir Stefán Bragi Bjarnason, fjármálastjóri Vélaborgar.

Lely Industries NV

Sá erlendi aðili sem Stefán ræðir um er hollenska félagið Lely Industries NV sem framleiðir m.a. heyvinnuvélar og mjaltaþjóna.

„Lely eru með 80% markaðshlutdeild í mjaltaþjónum á Íslandi. Það eru tæki sem þarf að þjónusta allan sólarhringinn alla daga ársins. Það er engin önnur starfsemi sem við þjónustum sem er með jafn mikilvæga útkallsþjónustu. Ef eitthvað hefði komið upp á hjá okkur hefðu þeir (Lely) þurft að stofna sérstakt fyrirtæki á Íslandi til að halda uppi þjónustunni. Við fengum þá því í rauninni til að stofna fyrirtæki með okkur og taka yfir þjónustuhlutverkið til að tryggja öryggi bænda. Við erum afskaplega sáttir við að þetta skuli vera komið í mjög öruggan farveg og engin hætta á að sú starfsemi stöðvist.

Það er líka svolítið sérstakt að það skuli vera Hollendingar sem ekki hafa verið sérstaklega vinsælir í íslensku þjóðfélagi að undanförnu sem koma okkur til aðstoðar. Þeir hafa reynst bestu vinir okkar þegar upp er staðið og hafa reynst okkur gríðarlega vel í gegnum þessa erfiðleika,"segir Stefán.