Seðlabanki Íslands stofnaði einkahlutafélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. í lok síðasta árs og færði þangað inn „ýmsar kröfur og tryggingar sem bankinn fékk frá viðskiptaaðilum sínum vegna dag- og veðlánaviðskipta.“ Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Um er að ræða veð sem bankinn tók vegna hinna svokölluðu veðlána til fjármálafyrirtækja fyrir bankahrun, en þau námu samtals 335 milljörðum króna. Þegar bankarnir hrundi haustið 2008 urðu mörg veðanna afar verðlítil meðal annars vegna setingu neyðarlaganna sem settu innlánskröfur í forgang. Ríkissjóður tók því yfir kröfur að andvirði um 270 milljarðar króna til að forða Seðlabankanum frá tæknilegu gjaldþroti og hefur þegar afskrifað um 175 milljarða króna af þeirri upphæð. Nú verður afgangurinn færður aftur yfir til Seðlabankans á bókfærðu virði og allar veðlánakröfurnar því á sama stað að nýju. Til viðbótar við þetta hefur Seðlabankinn sjálfur afskrifað um 75 milljarða króna vegna veðlánaviðskiptanna.