Áfrýjunarnefnd samkeppnismála úrskurðaði í áfrýjunarmáli Véla og Verkfæra á föstudag og staðfesti að meginhluta niðurstöðu Samkeppniseftirlits frá 8. apríl um að félagið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi.

Taldi áfrýjunarnefnd jafnframt hæfilegt að Vélar og Verkfæri greiði í 10 milljónir króna í sekt en ekki 15 milljónir króna eins og Samkeppniseftirlitið hafði komist að.

Þann 8. apríl sl. komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Vélar og verkfæri ehf. hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi. Hafi það komið í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð og með því að vinna gegn því að aðrir erlendir framleiðendur næðu fótfestu á íslenskum markaði.

Brot fyrirtækisins var talið alvarlegt og talið hafa áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Vegna þessa brots var Vélum og Verkfærum gert að greiða 15 milljónir króna stjórnvaldssekt.   Vélar og Verkfæri skutu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Vélar og Verkfæri séu í markaðsráðandi stöðu. Sektin var hins vegar lækkuð í 10 milljónir króna.