Flugvélar Wow air, sem eru allar af gerðinni Airbus A320 og A321, eru mun nýrri en flugvél Germanwings sem fórst í frönsku ölpunum í gær og er flugflotinn sá nýjasti á Íslandi. Þetta segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV .

Vélin sem fórst í gærmorgun var af gerðinni Airbus A320 og var framleidd árið 1991. Var hún því ein af þeim elstu í umferð á heimsvísu af þessari tegund.

Svanhvít segir að þessi tegund af flugvél sé ein algengasta og mest notaða farþegaflugvél í heimi og afar örugg sem slík. Hún sé notuð af mörgum stærstu flugfélögum heimsins, eins og til dæmis Easyjet, SAS, British Airways og Delta. Þá leggur hún áherslu á að flug sé afar öruggur ferðamáti þrátt fyrir þetta hræðilega slys, og sé mun öruggari en að ferðast með bíl svo dæmi sé tekið.

Þá segir hún að fyrirtækið muni ekki breyta neinu í starfsemi sinni í kjölfar slyssins. Flugöryggi farþega skipti félagið gríðarlega miklu máli, enda vinni öflugt og reynslumikið teymi að því markmiði, sem lúti ströngu eftirliti og alþjóðlegum stöðlum.