Verið er að undirbúa flugflota Wow air sem samanstendur af tveimur Airbus A320 vélum. Önnur vélin verður merkt WOW Force one og máluð í fjólubláum stöfum sem er einkennislitur Wow air. Vélarnar verða 168 sæta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um mun félagið fljúga til 13 áfanastaða í sumar.

,,Við erum nýtt og ferskt fyrirtæki og leggjum áherslu á að farþegum okkar finnist gaman að fljúga með okkur,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Wow air í tilkynningu frá félaginu.

„Sem leið að því markmiði verða merkingar á vélum okkar skemmtilegar og athyglisverðar, ólíkar hinum hefðbundnu og ég hef ekki trú á öðru en þær falli í góðan jarðveg meðal okkar viðskiptavina okkar sem og annarra.

Þá segir Guðmundur Arnar að viðtökur félagins hafi verið mjög góðar, bókunarstaðan sé góð og að félagið finni fyrir miklum velvilja sem sýni að það sé á réttri leið.

Loks kemur fram að Wow air hefur gengið frá ráðningum á flugfreyjum og flugþjónum. Einnig hefur verið auglýst eftir flugstjórum og flugmönnum og er umsóknarfresturinn til 1. mars. Guðmundur  Arnar segir að mikill fjöldi umsækjenda hafi sótt um þessi störf hjá félaginu og það hafi úr hæfum hópi að velja.