Vélarbilun varð í Heimaey VE í Síldarsmugunni þegar skipið var nýkomið á miðin síðastliðinn mánudagsmorgun. Ólafur Einarsson skipstjóri segir að sem betur fer hafi verið rjómablíða á svæðinu. Komin voru um 200 tonn í lest. Auk Heimaeyjar var Sigurður VE við veiðar á svæðinu ásamt fjölda rússneskra, færeyskra og norskra skipa. Sigurður VE tók Heimaey í tog og komu þeir til hafnar í Vestmanneyjum um miðnætti aðfaranætur miðvikudags.

Gengið skínandi vel

„Við vorum langt norðaustur í Síldarsmugunni og þarna voru útlendingar auk Sigurðar VE. Við vorum tiltölulega nýbyrjaðir og rúm 200 tonn komin í lest. Til allrar hamingju var renniblíða þegar þetta gerðist og í raun verið renniblíða alla leiðina en aðeins kaldaði á okkur upp á það síðasta,“ sagði Sigurður þegar skipin voru stödd í Meðallandsbugtinni.

Hann segir að alvarlegri staða hefði getað komið upp á þessari löngu leið heim ef eitthvað hefði verið að veðri.

Framundan er viðgerð á vélinni í Vestmannaeyjum næstu daga og í framhaldinu veiðar á íslenskri síld.

„Við vorum búnir með norsk-íslensku síldina. Að vélarbiluninni frátaldri hefur þetta gengið skínandi vel,“ segir Ólafur.

Þar með er veiðum íslenskra skipa á norsk-íslenskri síld lokið. Skip sem leggja upp afla hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað hættu veiðum 22. október. Síldarvertíðin gekk í alla staði vel hjá Síldaravinnslunni. Veiðarnar fóru lengi vel fram skammt austur af landinu og veður var hagstætt. Vinnsla var samfelld alla vertíðina. Fjögur skip sáu fiskiðjuverinu fyrir hráefni, en það voru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Einnig landaði Hákon EA frystri síld í Neskaupstað.

Uppsjávarskip Brims, Víkingur AK og Venus NS luku síldveiðum á þessu ári um síðustu mánaðamót. Undir lokin veiddist síldin  á svæði sem er í 300 mílna fjarlægð frá Vopnafirði. Þar á bæ og víðar er beðið eftir því að kolmunnaveiðar hefjist sem gæti orðið á næstu dögum.

Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu höfðu veiðst 105.031 tonn þann 12. nóvember og áttu þá líklega eftir að bætast við farmar Heimaeyjar VE og Sigurðar VE. Úthlutun til íslenskra skipa á almanaksárinu var 96.759 tonn en við bættust rúmlega 5.400 tonn í sérstökum úthlutunum og 3.773 tonn voru flutt milli ára. Alls stunduðu 21 uppsjávarskip veiðar á norsk-íslenskri síld á almanaksárinu. Aflahæstu skipin voru Venus NS með 11.594 tonn, Margrét EA með 9.995 tonn og Beitir NK með 8.454 tonn.