Uppbygging á viðskiptaveldi Karls Wernerssonar hefur verið með ólíkindum. Lyfsölukerfið sem var hér á landi fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar efldi til auðs margra lyfsala, þar á meðal Werners Rasmussonar. Ásamt því að reka Ingólfsapótek fjárfesti hann í Pharmaco og Delta. Þegar Karl sonur hans tók við fjárfestingum fjölskyldunnar um síðustu aldamót biðu mörg tækifæri mönnum sem tilbúnir voru að taka áhættu. Og það var Karl svo sannarlega tilbúinn að gera.

Efnahagur fyrirtækja Karls er um 480 milljarðar íslenskra króna í dag. 80% af eignum hans eru erlendis og fyrirtæki hans eru með starfsemi á Íslandi, á Norðurlöndum, í Austur-Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum.

Fjallað er um veldi Karls Wernerssonar í helgarúttekt Viðskiptablaðsins, en þar segir m.a.:

„Á þessum tímapunkti var Karl farinn að huga að næsta leik og má segja að stofnun Aska Capital hafi verið liður í því. Um leið var hann farinn að vinna markvisst að því að minnka umsvif sín í íslensku kauphöllinni. Í upphafi árs 2006 átti Milestone í 15 skráðum félögum hér á landi en um mitt ár var talan komin niður í 12. Þessu til viðbótar hafði hann minnkað hlut sinn í öðrum félögum. Karl hafði sett stefnuna á að setja upp eigið fjármálafyrirtæki og hóf þreifingar um sölu á hlutnum í Glitni. Í upphafi árs seldi hann 13% hlut í Glitni fyrir 54 milljarða króna og innleysti gríðarlegan söluhagnað. Þá fjármuni notaði hann til þess að ráðast í 70 milljarða króna yfirtöku á Invik sem var með stærri kaupum íslensks félags á erlendu fjármálafyrirtæki. Karl heldur þó enn eftir 7% hlut í bankanum og hefur talsvert af því að segja hvernig mál skipast þar.

80% af eignunum erlendis

Í upphafi árs 2008 var ráðist í mikla endurskipulagningu á félaginu sem meðal annars birtist í nafnbreytingu á Invik sem nú ber nafnið Moderna og er það alfarið í eigu Milestone. Hjá félaginu starfa 700 manns og heildareignir nema um 33 milljörðum sænskra króna eða um 430 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið byggir á þremur afkomusviðum, tryggingaþjónustu, bankastarfsemi og eignastýringu. Lætur nú nærri að 80% af eigum Milestone séu erlendis enda fara stjórnendur félagsins ekki leynt með að þeir telja vaxtarmöguleika þess fyrst og fremst vera þar. Hagnaður Moderna nam 1,1 milljarði sænskra króna á fyrsta fjórðungi ársins eða 14 milljörðum króna. Það jafngilti 68% ávöxtun á ársgrundvelli. Há arðsemi einkennir sem fyrr fyrirtæki Karls.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .