*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 17. september 2016 14:47

Óvægin umræða kemur á óvart

„Það kemur mér samt á óvart hversu óvægin umræðan getur verið í garð sjávarútvegs og að tekist sé á um grunnstoðir hans.“

Alexander F. Einarsson
Haraldur Guðjónsson

Heiðrún Lind Marteinsdóttir var á dögunum ráðin nýr framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, eða SFS, eftir áralangan starfsferil á lögmannsstofunni Lex. SFS var stofnað árið 2014 og urðu samtökin til við sameiningu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Samtaka fiskvinnslustöðva (SF).

Aðildarfélagar SFS eru í dag ríflega 130 talsins og er tilgangur samtakanna að gæta hagsmuna sjávar­ útvegsins í heild sinni. „Ég tel að það sé að mörgu leyti gott að þetta sé komið undir einn hatt þannig að auka megi samstarfið á milli veiða, vinnslu, sölu- og markaðssetningar. Hið endanlega markmið er að auka hagkvæmni og arðsemi sjávarútvegsins í heild sinni,“ segir Heiðrún Lind.

Nýr starfsvettvangur er talsvert ólíkur lögmennskunni. Hvað fannst þér mest spennandi við að taka að þér starf framkvæmdastjóra SFS?

„Þetta er auðvitað veruleg breyting frá lögmennsku. Ég hef brennandi áhuga á lögmennsku, en það það blundaði líka alltaf í mér einhver löngun til að setja fókusinn meira á rekstur. Þegar þetta tækifæri bauðst fannst mér það því rökrétt skref í þeirri nálgun. Svo hef ég haft mikinn áhuga á pólitík og ekki síst hvernig þjóðfélag við viljum búa okkur. Hagsmunagæsla fyrir sjávarútveginn tengir að mínu viti saman þekkingu mína á lögfræði annars vegar og áhuga á pólitík hins vegar. Að því leytinu til er ég mjög spennt fyrir starfinu.“

Sjávarútvegurinn virðist vera eilíft þrætuefni hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Hvers vegna telur þú að þetta sé svona umdeild grein?

„Umsvifamikil atvinnugrein verð­ ur örugglega alltaf umdeild eða fólk mun réttara sagt alltaf hafa skoðanir á henni. Það kemur mér samt á óvart hversu óvægin umræðan getur verið í garð sjávarútvegs og að tekist sé á um grunnstoðir hans. Þetta er sú grein sem hefur skilað hvað mestum ábata til þjóð­ félagsins. Við höfum borið gæfu til að koma upp kerfi hér á landi sem er sjálfbært, umhverfisvænt og skilar arðsemi.

Ég á því erfitt með að skilja af hvaða rót umræða sprettur um að gera verulegar breytingar á kerfinu. Það kann að vera að einhverjir vilji að þessi grein skili meiru til samfélagsins, en þegar maður rýnir í tölur er sú afstaða í raun ekki sanngjörn. Íslenskur sjávarútvegur er í alþjóðlegri samkeppni og íslenskur sjávarútvegur leggur meira til samfélagsins heldur en sjávarútvegur ríkja sem við eigum í samkeppni við. Ég get nefnt eitt dæmi af handahófi. Fyrir 100 milljóna króna aflaverðmæti makríls er íslenskur sjávar­ útvegur að greiða 46 milljónir króna í laun til sjómanna og gjöld til ríkisins. Af sama aflaverðmæti greiðir norskur sjávarútvegur 32 milljónir króna í laun og gjöld til ríkisins.

Staðreyndin er sú að við erum að leggja á hærri gjöld en þau ríki sem við erum að keppa við. Við verð­ um að huga sérstaklega að þessu því við viljum að sjálfsögðu ekki draga úr samkeppnishæfni sjávarútvegsins. Um leið og við gerum það munu tekjur til ríkisins frá sjávarútvegi dragast saman.“ Það hefur heyrst sú eilífa gagnrýni að „auðlind þjóðarinnar“ sé að skiptast á fáar hendur. Hvernig svarar maður þeirri gagnrýni? „Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi skipta hundruðum og eru af ýmsum stærðum og gerðum. Umræðan snýst gjarnan um stærstu fyrirtækin en ekki þau minni. Fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi er meiri en í ýmsum öðrum atvinnugreinum. Þá er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins HB Grandi hf. skráð á hlutabréfamarkað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.                                                       

Stikkorð: viðtal SFS Heiðrún Lind