The Wall Street Journal birti í gær jákvæða frétt um íslenskt efnahagslíf undir fyrirsögninni "Engin bráðnun á norðurheimskautinu" [e. "No Arctic Meltdown"]. Þar segir að sú staðreynd, að "þessi afskekkta heimskautseyja með undir 300.000 íbúa geti komið af stað skjálfta á erlendum gjaldeyrismörkuðum er til vitnis um efnahagslega velgengni, ekki yfirvofandi hrun."

Farið er yfir það hvernig þjóð, sem áður hafði einungis verið þekkt fyrir hveri, eldfjöll, fisk og poppstjörnuna Björk, hafi á síðasta áratug unnið hylli alþjóðlegra fjárfesta. "Þökk sé opnu hagkerfi og vel menntuðu fólki tókst þjóðinni að hætta að reiða sig á sjávarútveg og auka fjölbreytni með þjónustu, hátækni og fjarskiptum, sem skapaði yfir 4% hagvöxt á 10 árum af síðustu 11.

En þá kom röð neikvæðra skýrslna sem bitnuðu á gjaldmiðla-, skulda- og hlutabréfamarkaði eyjunnar. Fyrst í röðinni var Fitch, lánshæfismatsfyrirtækið, sem í síðasta mánuði breytti horfum á lánshæfismati Íslands úr "stöðugum" í "neikvæðar", vegna "viðskiptahalla sem ekki er hægt að viðhalda og gríðarlegrar hækkunar á skuldsetningu." Þá kom aðvörun frá Merrill Lynch, sem skrifaði skýrslu í þessum mánuði þar sem sagði: "Við erum aðeins að sjá upphafið að vandamálum íslensku bankanna."

18 milljarða dollara skuldir falla á bankana á næstu tveimur árum, sem er meira en 12 milljarða dollara árleg verg landsframleiðsla Íslands. Myrkasta skýrslan kom frá Danske Bank. "Ísland lítur verr út á næstum öllum mælikvörðum en Tæland fyrir kreppuna árið 1997 og aðeins hóflega betur en Tyrkland fyrir kreppuna þar 2001," sagði í skýrslunni, sem spáði að efnahagslífið myndi dragast saman um 5-10% á næstu tveimur árum.

"Sú spá er í engu samræmi við sögu okkar," sagði Ingimundur Friðriksson, aðstoðarseðlabankastjóri, þótt hann vildi ekki gefa upp nýjar hagvaxtarspár bankans fyrir vaxtaákvörðunardaginn á morgun [í gær].

Hvað veldur þessu þá? Morgan Stanley orðaði það líklega best í rannsókn fyrir tveimur vikum, undir fyrirsögninni "Íslensku bankarnir: Róið ykkur".

"Við teljum að viðskipti [með hlutabréf] bankanna séu í augnablikinu byggð á orðrómi og aðdróttunum, frekar en grundvallaratriðum," sagði í skýrslunni. Lánshæfismatsfyrirtækið Moody's virðist vera sammála, því það staðfesti í síðustu viku "stöðugar horfur" á lánshæfismati stærsta banka eyjunnar, Kaupþings.

Að vissu leyti hefur Ísland bæði verið fórnarlamb "auðvelds ágóða"-stefnu á þremur stærstu efnahagssvæðum veraldar og notið góðs af henni. Fjárfestar gátu fengið lán á lágum vöxtum í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan og unnið sér inn miklu hærri vexti á mörkuðum eins og þeim íslenska, sér í lagi þar sem seðlabanki eyjunnar hækkaði stýrivexti í 10,75% til að berjast við verðbólgu. Um leið og seðlabankar eru í vaxandi mæli að taka upp hlutlausari peningamálastefnu, verður Ísland ekki lengur jafn aðlaðandi, þannig að fjárfestar velta skyndilega áhættunni betur fyrir sér. Íslensku bankarnir hafa, í krafti kröftugs efnahagslífs heima fyrir (og "auðvelds fjármagns" erlendis) hlaðið upp skuldum til að fjármagna eyðslu. En staðreyndin að mikill hluti tekna þeirra kemur nú frá útlöndum ætti einnig að vernda þá fyrir afleiðingum þess ef íslenskt efnahagslíf hægir á sér.

"Þetta er bara depill á skjánum. Ég held að það sé ekkert kerfislægt vandamál," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Kannski, en árásirnar á gjaldmiðilinn hafa komið af stað umræðu á Íslandi um hugsanlega aðild að evrusvæðinu. Viðskiptalífið styður hana, nema hvað Ísland getur ekki hugsað sér að þurfa að lúta óábyrgri fiskveiðistjórn Evrópusambandsins. Um leið og fjölbreytni eykst í efnahagslífi eyjunnar, getur það orðið minni hindrun í framtíðinni."