Á fundi Viðskiptaráðs Íslands og sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, sem haldinn var í Kaupmannahöfn í gær, fóru fram umræður um íslenskt viðskiptalíf og stöðu íslensku bankanna. Fundurinn var vel sóttur.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, sagði að velgengi íslensku bankanna hefði ekkert að gera með þjóðerni stjórnendanna heima á Íslandi, eins og gjarnan væri haldið fram. Hins vegar tækju oft erlendar umfjallarnir og greiningar mið af því.

„Síðastliðin 11 ár hefur efnahagur Kaupþings vaxið um 101% á ári, eigið fé hefur vaxið um 81%, hagnaður um 79% og mikilvægast af öllu hefur hagnaður á hlut aukist um 45%. Hvernig höfum við síðan farið að þessu? Með því að fylgja einhverju séríslensku viðskiptamódeli? Mitt svar við þeirri spurningu er hreint og klárt nei! Kaupþing hefur byggt upp starfsemi sína með viðurkenndum og margreyndum aðferðum. Velgengnin hefur ekkert með þjóðerni að gera, ekki frekar en þegar illa gengur. Ég tel að það sé ákveðin andleg leti sem veldur því að sumir álitsgjafar setja öll íslensk félög undir sama hatt og greina þau út frá þjóðerni í stað þess að líta til þess að stefna fyrirtækjanna er í raun mjög ólík.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .