Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir viðtökur Hollendinga við Icesave reikningi Landsbankans á fyrsta degi hafa komið skemmtilega á óvart.

Um hádegisbil í Hollandi í dag höfðu verið stofnaðir rúmlega 1.000 Icesave reikningar. Til samanburðar má nefna að Landsbankinn taldi það mjög góðan árangur að 100.000 reikningar voru stofnaðir fyrsta árið sem reikningurinn var í boði í Bretlandi.

„Holland er náttúrulega miklu minna land en Bretland, þannig að þettafer mun betur af stað en við áttum von á. En síðan er það auðvitað þannig að það er ekki ráðlegt að gera ráð fyrir því að fyrsti dagurinn sé mælikvarði fyrir alla dagana,“ sagði Sigurjón.

Aðspurður að því hversu mikið fé hefur safnast á Icesave reikninga í Hollandi í morgun sagði Sigurjón ekki hægt að segja til um það strax. „Menn opna reikninginn fyrst og leggja svo inn á hann. Þess vegna er alltaf smá bið eftir því að við getum séð hversu mikið hefur safnast inn á Icesave reikningana,“ sagði Sigurjón.