Aurora velgerðarsjóður, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt og Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Samskipa og Alfesca stofnuðu, hefur úthlutað samtals 111,5 milljónum króna í styrki til sex verkefna, að því er segir í fréttatilkynningu. Styrkirnir eru á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóne og Mósambík.

Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum, sem var stofnaður 23. janúar 2007 með eins milljarðs króna framlagi. Í tilkynningu segir að samkvæmt stofnskrá sé gert ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til verkefna sem stuðlað geti að betra mannlífi á Íslandi og verkefna í þróunarlöndum. Að þessu sinni hafi stjórn sjóðsins ákveðið að leggja áherslu á verkefni hér á landi og því séu fjórir styrkir til íslenskra verkefna og tveir til erlendra.

Í tilkynningunni segir að tekist hafi að mestu að verja eignir sjóðsins í efnahagshruninu og sjóðstjórn haldi því ótrauð áfram að starfa í þeim anda sem til hafi verið stofnað.