Ferð íslenskrar viðskiptasendinefndar til Toronto í Kanada er nú að ljúka. Ferðin er skipulögð af Útflutningsráði í samvinnu við skrifstofu Ferðamálastofu í Norður-Ameríku og með í för eru fulltrúar 16 íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.

Að sögn Þorleifs Þórs Jónssonar verkefnisstjóra hjá Útflutningsráði, sem fer fyrir hópnum, hefur allt gengið að óskum. Farið var utan með beinu flugi Icelandair sl. mánudagskvöld og í gær gafst fulltrúum íslensku fyrirtækjanna kostur á að ræða við starfsfólk kanadískra ferðaskrifstofa og fulltrúa fjölmiðla. Sérstök Íslandskynning var haldin síðdegis í gær og tókst hún mjög vel.

Í gær var haldinn fræðslufundur þar sem Chris Robinson sá um að fræða íslensku þátttakendurna um stöðu mála á kanadískum ferðaþjónustumarkaði og helstu strauma í þeim efnum. Í dag fara fram fyrirfram skipulagðir viðskiptafundir auk þess sem farið verður í vettvangsheimsóknir. Dagskránni lýkur í kvöld að íslenskum tíma og er viðskiptasendinefndin væntanleg til landsins í fyrramálið.