Bankaráð Landsbankans hefur valið sjö arkitektateymi til að skila inn frumtillögum að hönnun nýrra höfuðstöðva fyrir Landsbankann við Austurhöfn í Reykjavík.

Byggja á um 16.500 m² nýbyggingu við Austurhöfn en þar af mun Landsbankinn nýta um 10.000 m², eða um 60% af flatarmáli hússins en selja eða leigja frá sér um 6.500 m².

Í byrjun september auglýsti Landsbankinn eftir arkitektum til að hanna nýbygginguna. Alls lýstu 26 arkitektateymi yfir áhuga á að taka þátt í hönnun hússins en að lokum voru sjö teymi valin. Upphaflega stóð til að velja þrjú til fimm teymi en að lokum urðu þau sjö, „til að tryggja fjölbreytni og gefa breiðari hópi tækifæri til að koma með frumtillögur að hönnun hússins“.

Óskað er eftir að teymin skili inn tillögum sínum fyrir 11. janúar 2018. Landsbankinn reiknar með að val á vinningstillögu verði tilkynnt í lok febrúar 2018.

Landsbankinn hefur gefið út að áætlaður kostnaður við bygginguna væri um 8 milljarðar króna. Hins vegar muni árlegur rekstrarkostnaður húsnæðis lækka um 700 milljónir króna þar sem starfsemin sem flytja á í höfuðstöðvarnar sé nú dreifð í mörgum byggingum víða um Reykjavík.

Teymin sem urðu fyrir valinu eru:

  • Arkþing og C.F. Møller
  • BIG og Arkiteó í samstarfi við BIG Engineering, VSÓ ráðgjöf, Dagný Land Design og Andra Snæ Magnason
  • Henning Larsen og Batteríið arkitektar
  • Kanon arkitektar ehf. og Teiknistofan Tröð ehf.
  • MVRDV og Basalt arkitektar
  • PKdM arkitektar
  • Teymið - A2F arkitektar, Gríma arkitektar, Kreatíva teiknistofa, Landmótun og Trivium