„Okkar lykilmarkmið er að bæta afkomuna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.  Félagið greindi frá því í gær að sjö milljarða króna tap hafi verið af rekstri félagsins annað árið í röð . Þar vóg kyrrsetning MAX vélanna þungt en félagið áætlar að það hafi kostað félagið 12 milljarða króna í fyrra þó tekið sé tillit til bóta sem Boeing greiddi Icelandair í fyrra.

Afkoman batnar þrátt fyrir tap

Hins vegar sé að verða rekstrarbati hjá félaginu. Félagið býst við að rekstrarhagnaður (EBIT) þessa árs verði 40 til 70 milljónir dollara, miðað við 39 milljóna dollara rekstrartap árið 2019 og 57 milljóna dollara rekstrartap árið 2018. Á fjórða ársfjórðungi, sem alla jafna skilar taprekstri, batnaði afkoman úr 69 milljóna dollara rekstrartapi í 37 milljóna dollara rekstrartap. Markaðurinn hefur tekið vel í uppgjörið og hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 5,8% það sem af er degi.

„Við erum að stilla upp leiðakerfinu með þeim hætti að afkoman að leiðakerfinu, sem er grundvöllurinn að rekstri félagsins og viðskiptamódeli, sem styrkist. Við erum fyrsta og fremst að horfa á það en ekki vöxt. Við ætlum með því að byggja grunn að sjálfbærum innri vexti félagsins til framtíðar,“ segir Bogi.

Fækka á flugvélum í leiðakerfi félagsins yfir háönnina úr 33 í 31 milli ára. Hætt verður að fljúga til fjögurra áfangastaða í Bandaríkjunum en áætlunarflugi til Barcelona bætt við. Því flýgur Icelandair til 40 áfangastaða á þessu ári í stað 43 árið 2019.

Gætu yfirgefið Boeing eftir áratuga samstarf

MAX málið vegur þó enn þungt hjá Icelandair. Félagið hugðist nota 9 MAX flugvélar í sumaráætlun sinni en það mun að óbreyttu ekki ganga eftir. „Við erum í viðræðum og erum að veita þeim upplýsingar og fara yfir málin en vitum ekki nákvæmlega hvenær næstu skref verða stigin þó málið þokist áfram," segir Bogi um viðræður við Boeing um frekari bætur. Áhrif kyrrsetningarinnar á rekstur félagsins eiga þó að vera mun minni en á síðasta ári, m.a. vegna þess að hægt hafi verið að tryggja leiguvélar á mun hagstæðari kjörum en á síðasta ári.

Þá kom fram á fundinum að Icelandair hygðist taka ákvörðun á fyrri helmingi þessa árs um framtíðar skipan flota félagsins. Icelandair hefur haft til skoðunar að taka Airbus flugvélar inn í flota annað hvort að hluta eða öllu leyti, en Icelandair notast í dag einungis við Boeing flugvélar, eins og raunin hefur verið um áratugaskeið.

Bogi segir MAX málið hafi ekki áhrif á viðræðurnar um framtíðarskipan flota félagsins.  „MAX málið er skammtímamál eins og við horfum á það. Langtímaplön og ákvarðanir um það munu fylgja okkur til tuga ára, þannig að við horfum ekki á það í því samhengi," segir hann.

Lagt til að fá tvo erlenda sérfræðinga í stjórnin

Á síðasta ári keypti bandaríska fjárfestingafélagið PAR Capital í Icelandair og er nú orðið stærsti hluthafi félagsins með 13,7% hlut. Í morgun var greint frá því að tilnefningarnefnd félagsins legði til að tveir reynslumiklir erlendir sérfræðingar, Nina Jonsson og John F. Thomas, tækju sæti í stjórn Icelandair í stað Ómars Benediktssonar og Heiðrúnar Jónsdóttur. Í máli Boga kom fram að styrkur hafi verið að því að geta leitað til PAR Capital á síðasta ári, þar sem það hefði mikla reynslu innan fluggeirans.