Norðmaðurinn Ivar Tollefsen, sem nýverið keypti ráðandi hlut í leigufélaginu Heimavöllum, er 804. ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes. Tollefsen er 58 ára og sá einstaklingur sem á flestar íbúðir á Norðurlöndunum. Auður hans er metinn á á 2,7 milljarða dollara, hátt í 400 milljarða króna. Ævintýraþrá Tollefsen hefur þó ekki vakið minni athygli en fasteignarekstur.

Tollefsen var vinsæll rithöfundur og fyrirlesari í Noregi og á tíunda áratugnum eftir afrek á sviði útivistar. Hann kleif hæstu tinda fimm heimsálfa á fimm vikum. Þá leiddi hann tveggja mánaða leiðangur á Suðurpólnum í ársbyrjun 1994 þar sem 23 tindar voru klifnir í fyrsta sinn, sem þykir einstakt afrek.

Tollefsen ásamt félögum sínum settu heimsmet árið 2002 með því að vera fljótastir allra að skíða þvert yfir Grænland, um 560 kílómetra leið. Eftir að hafa misst metið árið 2015, einsettu þeir sér að ná því á ný. Það tókst ári síðar þegar Tollefsen skíðaði yfir jökulbreiðuna á innan við sjö sólarhringum, þá orðinn 55 ára gamall.

Árið 2017 keypti fasteignafélag Tollefsen sögufrægt húsnæði bandaríska sendiráðsins í Osló. Ekki var hægt að ná viðtali við Tollefsen eftir að greint var frá þeim kaupum þar sem hann var utan símasambands, fastur í hríðarbyl á Suðurskautinu. Tollefsen varð einnig fjórði í Dakar rallýinu árið 2009, sem er besti árangur sem áhugamaður hefur náð í keppninni.

Keypti 40 þúsund íbúðir í Tékklandi

Fasteignarekstur Tollefsen hófst í upphafi tíunda áratugarins þar sem hann nýtti ágóðann af bóksölu og fyrirlestrum til að kaupa sínu fyrstu fasteign í Osló. Fasteignaverð var þá lágt eftir bankakreppuna í byrjun tíunda áratugarins. Reksturinn hefur undið upp á sig. Tollefsen á í dag fasteignafélagið Fredensborg og er meirihlutaeigandi leigufélagsins Heimstaden. Innan samstæðunnar eru alls um 95 þúsund íbúðir. Heimstaden leigir út ríflega 50 þúsund íbúðir í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Hollandi. Þá keypti félagið nærri 40 þúsund leiguíbúðir í Tékklandi í byrjun þessa árs á jafnvirði um 200 milljarða króna.

Norskir fjölmiðlar hafa undanfarin ár reglulega fjallað um meint brot leigufélaga Tollefsen á réttindum leigjenda og óánægju sumra leigjenda með háa húsaleigu. Tollefsen hefur mótmælt slíkum fullyrðingum. Hann lýsir sjálfum sér sem sósíal-demókrata sem hafi virt réttindi leigjenda og leitist við að bjóða þeim góð kjör.

Fasteignafélagið Fredensborg í eigu Tollefsen gerði yfirtökutilboð í Heimavelli fyrr í apríl. Í yfirtökutilboðinu kom fram að ekki ætti að gera breytingar á rekstri Heimavalla, stjórnendum eða starfsmönnum en þó væri stefnt að því að afskrá félagið úr Kauphöll Íslands.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er ítarlega um stöðu Icelandair Group
  • Farið er yfir líkleg áhrif kórónufaraldursins í fátækari löndum
  • Eftirlitsnefnd um Íslandspóst fór ítarlega yfir hvort fyrirtækið hefði niðurgreitt óarðbæra þjónustu
  • Traust til fjölmiðla er borið saman við traust til stjórnvalda og heilbrigðiskerfa í könnun í fjórum löndum
  • Fjármálaeftirlit SÍ hefur verið krafið um rökstuðning fyrir undanþágu Samherja á yfirtökuskyldu á Eimskip
  • Fjallað er um afkomu endurskoðunnarfyrirtækjanna á síðasta rekstrarári og áhrif COVID-19 á starfsemi þeirra
  • Íslenskt fyrirtæki sem býður upp á innkaupa- og birgðastýringalausnir, hefur vaxið hratt á undanförnum árum
  • Alexander Richter nýr framkvæmdastjóri Orkuseturs Íslands er tekinn tali m.a. um skíðaáhugann.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um pláguna, flugið og ferðaþjónustuna
  • Óðinn skrifar um Þríeykið og þingræðið, umræðu og uppeldi