*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Frjáls verslun 13. desember 2020 18:01

Velmegun byggi á sterkum útflutningi

Ásdís Kristjánsdóttir segir áskorunina framundan vera að byggja upp útflutningstekjur til að standa undir innlendri neyslu.

Andrea Sigurðardóttir
Ásdís Kristjánsdóttir er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Eyþór Árnason

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ræðir um stöðu efnahagsmála í viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út á dögunum. Hún segir atvinnulífið standa frammi fyrir krefjandi áskorunum á næstu misserum.

„Við erum enn í björgunaraðgerðum og mikilvægt að þær séu sértækar og grípi þau fyrirtæki sem lenda í mesta tekjufallinu og eru lífvænleg. Það eru takmörk fyrir því hvað ríkissjóður getur gert og engin skynsemi fólgin í því að fara í ómarkvissar aðgerðir á kostnað skattgreiðenda," segir Ásdís og bætir við,

„Til lengri tíma litið þarf að leggja grunn að hagvexti til framtíðar svo unnt sé að skapa verðmæt störf. Leiðin til þess er að draga úr álögum og hleypa súrefni inn í aðþrengt atvinnulíf - þar á að forgangsraða að mínu mati. Fyrirtæki halda að sér höndum í svona ástandi, það er enginn að fjárfesta þegar óvissan er svona mikil. Það þarf að örva fjárfestingu og nýsköpun svo framleiðsla og framþróun geti hafist á ný í einkageiranum."

Að mati Ásdísar hefur hið opinbera þanist út síðustu ár. „Fjármálaráðherra sagði í viðtali um daginn að það væri að eiga sér stað blóðug sóun úti um allt í opinbera kerfinu. Það er alveg rétt hjá honum. Það þarf að fara betur með skattfé landsmanna. Það er enginn að tala um blóðugan niðurskurð en það hlýtur að vera hægt að hagræða hjá hinu opinbera eins og annars staðar í atvinnulífinu. Þá hafa viðbrögð okkar við heimsfaraldrinum sýnt fram á aðlögunarhæfni heilbrigðiskerfisins þegar opinberir og einkaaðilar taka höndum saman. Það er enginn að tala um að einkavæða heilbrigðiskerfið en það þarf að líta til einkareksturs með opnum hug. Á Norðurlöndunum er einkarekstur heilsugæslu og sjúkrahúsa mun umfangsmeiri en hér á landi sem dæmi."

Áskorunin fram undan, að mati Ásdísar, er að byggja upp nýjar útflutningstekjur til að standa undir innlendri neyslu.

„Þegar ein af þremur stærstu útflutningsgreinum landsins leggst í dvala hefur það auðvitað áhrif. Við byggjum lífskjör okkar á vexti og viðgangi útflutningsgreina. Undanfarin ár höfum við upplifað óvenjulega tíma. Hér hefur verið mikill og samfelldur hagvöxtur sem er langt umfram það sem við höfum séð í flestum öðrum iðnríkjum. Kaupmáttur hefur sjaldan verið meiri og í alþjóðlegum samanburði er kaupmáttur launa einn sá hæsti í heimi á sama tíma. Þá hefur ríkt stöðugleiki og vextir hafa lækkað. Ef ferðaþjónustan nær ekki vopnum sínum á ný og aðrar útflutningsgreinar ná ekki að vinna upp tekjutapið þá verðum við að sætta okkur við lakari lífskjör, því miður. Áskorun okkar er því að tryggja sterkar og öflugar útflutningsgreinar."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.