Viðbúið er að starfsmönnum Amazon muni fækka á næstu árum þegar vél- og vélmennavæðing er orðin meira áberandi í vöruhúsum netrisans. Eins og sakir standa eru nú um 15.000 vélmenni sem starfa í vöruhúsunum. Þeim er ætlað að stytta tímann sem tekur að afgreiða pantanir.

Vélmennin sem um ræðir eru kölluð Kiva. Þau þeysast um með hillur í vöruhúsunum með vörur sem hafa verið pantaðar á Amazon.com. Starfsmenn Amazon þurfa því í sumum tilfellum ekki lengur að sækja vörurnar úr hillum, heldur koma hillurnar til þeirra með aðstoð vélmennanna.

Þörf á mennsku vinnuafli minnkar

Óhjákvæmilegt er að með framleiðniaukningu sem þessari þurfi færri mennskar hendur til að vinna hvert verk. Líkt og í iðnbyltingunni og við aðrar tækniframfarir er því viðbúið að starfsfólki verði fækkað í einhverjum af þeim 109 vöruhúsum sem Amazon hefur á sínum snærum.

„Mennskir starfsmenn munu hafa minna að gera," segir Michael Pachter, sérfræðingur hjá Wedbush Securities. „Það er augljóst að fólk á eftir að missa þessi störf. Áhrifin vélmenna verða nákvæmlega þau sömu í smásölu og þau voru í framleiðslu," segir Pacther í samtali við LA Times.