Fyrirtæki í Norður-Ameríku juku fjárfestingu í iðnaðarvélmennum nokkuð duglega á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, þar sem þau mörg hver freistuðu þess að ná að anna eftirspurn á tímum COVID-19 faraldursins. Reuters greinir frá.

Fyrirtækin pöntuðu alls 9.098 vélmenni á ársfjórðungnum, sem er 19,6% fleiri pantanir en bárust á sama tímabili í fyrra. Alls nam verðmæti pantananna ríflega 466 milljónum dala, eða sem nemur ríflega 58 milljörðum króna.

Þróun vélmenna sem hægt er að nýta til ýmissa verksmiðjustarfa hefur fleytt hratt fram undanfarin ár. Til að byrja með voru slík vélmenni mest notuð við framleiðslu bifreiða en undanfarið hefur vélmennum brugðið fyrir í fleiri iðnuðum, allt frá netverslunarvöruhúsum yfir í matvælaframleiðslustöðvar.