Rhino Aviation var stofnað árið 2013 af þeim Sigurði Óla Gestssyni og Jóhanni Guðbjargarsyni. Þeir höfðu áður starfað saman, en stofnuðu fyrirtækið til að þróa áfram verkefni sem hófst innan Icelandair; hugbúnaðarlausn sem er fær um að stýra ferlum og gera hluti sem áður kröfðust mikillar vinnu og sérþekkingar.

„Ég var að vinna hjá Icelandair og var deildastjóri í innkaupadeild hjá tækniþjónustunni. Við vorum búnir að vera að vinna ákveðna hluti tengda upplýsingatæknilausnum. Jóhann kemur að aðstoða mig að koma þessum hugmyndum, um hvernig ferlar eiga að vera, á hugbúnaðarform. Árið 2013 er svo ákveðið að við skrifum hugbúnað fyrir Icelandair, og svo þróast það yfir í að skrifa almennan hugbúnað,“ segir Sigurður.

Síðan þá hafa félagarnir stækkað við sig og eru nú komnir með fleiri viðskiptavini og samstarfsaðila bæði hér á landi og erlendis. „Síðustu 18 mánuði höfum við verið á kafi í sölu og markaðssetningu á þessu og erum að vinna í því annars vegar að selja hugbúnaðinn og hins vegar í ráðgjöf á sviði birgðastýringar og varahlutamála. Við höfum líka verið að smíða sértækar lausnir í viðhaldsmálum fyrir flugfélög. Meðfram þessu erum við búnir að gera samning við Capacent hér á Íslandi þar sem þeir eru að markaðssetja lausnina utan fluggeirans. Erlendis erum við svo með samstarfsaðila í fluginu og erum að vinna með Lufthansa Technics og fleiri fyrirtækjum.“

Sjálfvirkt innkaupakerfi
Ein lausnin sem félagið býður upp á er sjálfvirkt kerfi sem pantar varahluti fyrir viðkomandi fyrirtæki. „Við erum að búa til vélnámslausnir, meðal annars innkaupaalgrím og spáaðferðir, og við getum tengt þessi algrím við viðskiptakerfi eða viðhaldskerfi fyrirtækja og sett upp ferla og bestun og fleira í okkar kerfi, sem leiðir til þess að við getum búið til lausnir eins og til að stýra varahlutamálum í flugvél eða spá fyrir um áreiðanleika einstakra varahluta í flugvél eða eitthvað slíkt.“

Það er hinsvegar bara hluti af því sem fyrirtækið býður upp á. „Við getum í raun sett upp og þróað vörur í kerfinu. Ein varan er einmitt innkaupakerfi en þær eru mun fleiri.“

Aðalmálið að koma í veg fyrir kyrrsetningu
Önnur lausn sér um að fylgja því eftir að hlutir fari í og komi úr viðgerð á réttum tíma. Kerfið flokkar niður hversu mikilvægur hver hlutur og hver þáttur er og vinnur út frá því. „Sumir varahlutir hafa kannski lítil áhrif þó þá vanti tímabundið, á meðan mjög mikilvægt er aðrir séu til, út frá hreyfingum og fleira. Jafnvel getur það verið þannig að út frá birgðastöðu borgi sig að greiða aukalega fyrir að fá þá fyrr úr viðgerð. Þetta heldur utan um og hefur góða yfirsýn yfir þetta allt.“

Kerfið metur til dæmis áhrif þess að það sé vöntun eða seinkun á viðkomandi hlut og stýrir birgðastöðu, eða annarskonar hreyfingum, eftir því hversu mikil þau eru. Allskonar gögn koma við sögu við vinnsluna. „Þetta eru oft fjárhagsupplýsingar en ýmislegt annað er einnig mikilvægt. Fyrir flugvél til dæmis þá er aðalmálið að koma í veg fyrir að hún sé kyrrsett.“