Ferðaþjónusta bænda var stofnuð árið 1980 og er því ein elsta ferðaskrifstofa landsins. Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu Félags ferðaþjónustubænda, sem á um það bil þriðjung. Ýmsir einstaklingar, aðallega bændur en þó einnig lykilstarfsmenn fyrirtækisins, eiga minni hluti í Ferðaþjónustu bænda. Sævar Skaptason hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árinu 1998.

„Ferðaþjónusta bænda hefur stækkað mikið síðustu ár," segir Sævar.  „Árið 1998 voru fjórir starfsmenn á skrifstofunni en í dag starfa hér tæplega 40 manns og í fyrra nam veltan um 2,5 milljörðum króna. Öll framlegð, allur arður, er greiddur að einum þriðja til félagsins og síðan til einstakra hluthafa."

Samfara þessum mikla vexti fyrirtækisins var reksturinn stokkaður upp fyrir tveimur árum. Þá voru fengnir ráðgjafar til að fara yfir reksturinn og móta stefnu til framtíðar, stefnu sem fyrirtækið byggir á í dag.

„Fyrirtækið hefur verið rekið án vandræða. Við eigum okkar húsnæði og við erum alltaf réttu megin við núllið þó hagnaðurinn sé auðvitað mismikill. Þar sem fyrirtækið byggir að stórum hluta á sölu ferða til erlendra ferðmanna  þá er stærsti áhættuþátturinn í okkar rekstri gengi íslensku krónunnar," segir Sævar. Í þessu sambandi má benda á að í ársskýrslu Samtaka ferðaþjónustunnar, sem kom út fyrir skömmu, kemur fram að gengi íslensku krónunnar hafi í fyrra lækkað um 13% gagnvart Bandaríkjadal og 5% gagnvart bresku pundi. Flestir hinna erlendu ferðamanna sem sækja Ísland heim koma einmitt frá þessum löndum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .