Velta 66°Norður er áætluð um 1.200 milljónir króna árið 2005. Í fréttatilkynningu frá félaginu í kjölfar kaupa Sigurjóns Sighvatssonar á félaginu kemur fram að staða fyrirtækisins er mjög sterk á markaði hérlendis en auk þess hefur 66°Norður verið í útrás erlendis undanfarið. Fyrirspurnir um vörur fyrirtækisins hafa borist frá fjölmörgum löndum og mikill áhugi er á vörunni um allan heim.

66°Norður hefur starfað í nær 80 ár og í dag starfa þar yfir 200 manns bæði hér á landi og erlendis. Stærstur hluti af framleiðslu 66°Norður fer fram í verksmiðju fyrirtækisins í Saldus í Lettlandi þar sem í dag starfa um 150 manns. Nýlega hafa verið fest kaup á annari verksmiðju í Aizpute í Lettlandi sem mun taka til starfa nú í lok janúar. Ráðgert er að þar starfi um 100 manns í vibót, þegar sú verksmiðja nær fullum afköstum um mitt ár 2006.

Á Íslandi starfa um 65 manns við fyrirtækið en aðalstöðvarnar eru við Miðhrauni 11 í Garðabæ. Fyrirtækið rekur fimm búðir í Reykjavik, Garðabæ og á Akureyri, auk útsölumarkaðar í Reykjavík. Auk þess eru umboðsverslanir á þremur stöðum á landsbyggðinni og umboðsmenn víðsvegar um landið.