Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist hratt saman síðustu vikur samkvæmt tölum Fasteignamats ríkisins. Mjög lítil velta var síðustu viku ársins, aðeins 2,5 milljarðar króna samanborið við tæplega 6 milljarða króna meðalveltu á viku yfir árið í heild. Inn í þetta spilar að viðskiptadagar voru fáir, en jafnvel þó að horft sé á fjögurra vikna meðalveltu er sláandi breyting á milli vikna.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur breyting á milli ára á fjögurra vikna meðalveltu farið hratt lækkandi frá því í byrjun október. Síðustu fjórar vikur hafði hægt á þessum veltusamdrætti, en nú er aukning á fjögurra vikna meðalveltu dottin niður úr tæpum 40% í 7% á einni viku. Að hluta til stafar þetta af því hvernig fríin leggjast um hátíðirnar, en þegar tölurnar eru skoðaðar nánar virðist að stærstum hluta mega rekja þetta til raunverulegrar hratt minnkandi veltu.

Færri samningar nú en í fyrra

Þegar horft er á fjölda gerðra kaupsamninga er þróunin á milli vikna enn hraðari. Upp úr miðju ári í ár var fjöldi samninga til að mynda meira en tvöfaldur fjöldinn í fyrra. Síðan hefur munurinn minnkað hratt og síðustu tvær vikur hefur samningum fækkað á milli ára, mælt með fjögurra vikna meðaltali. Samdrátturinn í síðustu viku var 13%.