Velta á fasteignamarkaði hélt áfram að dragast saman í síðustu viku þegar horft er á breytingu á veltu á milli ára.

Breyting á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára, sem sjá má á meðfylgjandi línuriti, hefur verið að dragast saman frá því í haust.

Samdrátturinn er nú 19% á þennan mælikvarða en var 16% í fyrri viku og er þetta enn ein vísbendingin um að farið sé að hægjast um á fasteignamarkaði.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 4. janúar til og með 10. janúar 2008 var 71. Þar af voru 53 samningar um eignir í fjölbýli, 6 samningar um sérbýli og 12 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 3.308 milljónir króna og meðalupphæð á samning 46,6 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef Fasteignamats Ríkisins.

Á sama tíma var 9 kaupsamningum þinglýst á Akureyri. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli, 3 samningar um sérbýli og 3 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 158 milljónir króna og meðalupphæð á samning 17,6 milljónir króna.

Þá var 4 kaupsamningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af var 1 samningur um eignir í fjölbýli, 1 samningur um sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 71 milljón króna og meðalupphæð á samning 17,6 milljónir króna.

Vakin er athygli á að meðalupphæð kaupsamnings er ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar, misgamlar o.s.frv.