Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að dragast saman á milli ára og hefur samdráttur verið í þrjár vikur í röð eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Miðað er við breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára og á þann mælikvarða minnkaði veltan um 31% í liðinni viku en hafði minnkað um 19% í vikunni áður.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá er þetta frekari vísbending um að farið sé að hægjast um á fasteignamarkaði.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu frá 11. til 17. janúar var 63. Þar af voru 44 samningar um eignir í fjölbýli, 9 samningar um sérbýli og 10 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 2,4 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 37,6 milljónir króna. Þetta kemur fram á vef Fasteignamats Ríkisins.

Á sama tíma var 22 kaupsamningum þinglýst á Akureyri. Þar af voru 4 samningar um eignir í fjölbýli, 5 samningar um sérbýli og 13 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var rúmur hálfur milljarður króna og meðalupphæð á samning 23,5 milljónir króna.

Á sama tíma var 9 kaupsamningum þinglýst á Árborgarsvæðinu. Þar af voru 2 samningar um sérbýli og 7 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var 175 milljónir króna og meðalupphæð á samning 19,4 milljónir króna.