Velta á fasteignamarkaði nam 3,3 milljörðum króna í síðustu viku og jókst um 55% á milli vikna, samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins. Veltan hefur verið lág það sem af er ári, en velta á fasteignamarkaði sveiflast gjarna mikið á milli vikna. Þess vegna er oft horft til meðalveltu nokkurra vikna og breytinga á henni á milli ára.

Á meðfylgjandi línuriti má sjá breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára. Eins og sjá má hefur veltan dregist saman um rúm fjörutíu prósent á milli ára, en samdrátturinn á þennan mælikvarða var þó heldur minni í síðustu viku en viku fyrr.

Ef horft er á lengra meðaltal, 12 vikna meðalveltu, jókst samdráttur á milli ára úr 7% í 12% á milli vikna. Fyrir tveimur vikum mældist samdráttur á milli ára í fyrsta sinn í rúmt ár á þennan mælikvarða.