Velta á fasteignamarkaði tók aðeins við sér í liðinni viku en veltan nam um 4,1 milljörðum króna og hækkaði  um 24% milli vikna. Þá hefur ekki verið jafn mikil velta á markaði á einni viku á þessu ári.  Í fyrri viku nam veltan rúmlega 3,3 milljörðum króna samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins (FMR).

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu í vikunni sem leið var 110 en voru 97 í vikunni þar áður.

Meðalvelta á hvern samning heldur áfram að hækka og er nú 37,6 milljónir sem er líkt því sem var um miðjan janúar. Kaupsamningum hefur fækkað milli ára og er vægi hvers kaupsamnings meira fyrir vikið. Auk þess getur hver samningur falið í sér fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru mismunandi.

Þinglýstir samningar eru að meðaltali 88 á viku frá áramótun. Ef litið er til ársbreytingar á veltu hefur kaupsamningum fækkað um 28%

Á meðfylgjandi línuriti má sjá breytingu á fjögurra vikna meðalveltu á milli ára. Fasteignasala sveiflast gjarnan mikið á milli vikna og þess vegna er horft til meðalveltu nokkurra vikna og breytinga á henni milli ára.