Velta á gjaldeyrismarkaði jókst um 18% milli mánaða og var 413 milljarðar króna í mars, að sögn greiningardeildar Kaupþings.

?Veltan dregst þó saman frá því í mars í fyrra sem var veltumesti mánuðurinn frá upphafi (656 milljarðar króna), en á þeim tíma féll gengið um 20% í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar um íslenskt efnahagslíf. Gengisvísitala krónunnar stóð nánast í stað nú í mars miðað við mánuðinn á undan, en lokagildi gengisvísitölunnar var 119,15 stig.

Velta á gjaldeyrismarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins nam 1.200 milljörðum króna samanborið við 1.170 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2006 þegar gengi krónunnar féll eins mikið og raun bar vitni,? segir greiningardeildin.

Hún segir umsvif krónubréfaútgáfu þónokkur í mars eða sem nemur 45 milljörðum króna. Til móts við útgáfurnar komu hinsvegar gjalddagar eldri bréfa sem nemur 23 milljörðum króna án vaxtagjalda og virtust heildaráhrif krónubréfaviðskipta á gengi krónunnar fremur lítil.

?Um 150 milljarðar króna eru á gjalddaga á síðari hluta þessa árs, einna mest í september. Þetta gæti valdið aukinni veltu á markaði og veikingu krónunnar í kjölfarið. Þróun veltu á gjaldeyrismarkaði undanfarin ár hefur verið upp á við og er nú komin meiri dýpt í markaðinn en áður. Aukin velta undanfarinna ára skýrist af auknum áhuga erlendra aðila á Íslandi, sem og góðum skilyrðum til vaxtamunarviðskipta,? segir greiningardeildin.