Velta á skuldabréfamarkaði nam alls 35,4 milljörðum króna í síðustu viku en þar af voru viðskipti með verðtryggð bréf upp á 29,6 milljarða, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra íbúðabréfa lækkaði um einn til átta punkta í síðustu viku á meðan krafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um 25-27 punkta.

Í lok síðustu viku lá verðtryggða krafan á bilinu 3,94%-4,18% og óverðtryggða krafan á bilinu 8,27%-9,17%.

Gengi krónunnar veiktist um 5,7% í síðustu viku og var 118,2 stig við lokun markaða á föstudaginn.

Þessa miklu veikingu krónunnar má helst rekja til mikils viðskiptahalla og slæmrar fjölmiðlaumræðu undanfarið, bæði um stöðu efnahagslífsins og fjármálakerfisins.