Hlutabréfamarkaður í Kauphöllinni horfir til betri vegar, ef litið er til yfirlits um veltu og gengis á hlutabréfum. Í tilkynningu frá Kauphöllinni kemur fram að „heildarviðskipti með hlutabréf í júnímánuði námu 29.116 milljónum eða 1.386 milljónum á dag. Það er 15% lækkun frá fyrri mánuði, en í maí námu viðskipti með hutabréf 1.623 milljónum á dag.  Þetta er 5% hækkun á milli ára (viðskipti í júní 2014 námu 1.315 milljónum á dag)."

Þar af voru mest viðskipti með bréf Icelandair Group, eða sem nam 7.275 milljónum króna. Þar á eftir eru bréf Eimskipafélags Íslands þar sem velta nam 2.882 milljónum, Reita með 2.531 milljón, N1 með 2.487 milljónir og Marel með 2.433 milljónir króna.

Eins og kom fram í frétt Viðskiptablaðsins hefur gengi úrvalsvísitölu hækkað um 2,3% milli mánaða, sem jafngildir 27,3% ársávöxtun.

Arion banki stærstur í júní

Á heildina litið var Landsbankinn með mesta hlutdeild það sem af er ári, eða 30,5%. Þar á eftir er Arion banki með 22,2% og Íslandsbanki með 18,9%. Sé litið til hlutdeildar í júní eingöngu er Arion banki hins vegar stærstur með 29,9%, Íslandsbanki með 22,6% og Landsbankinn með 16,3%.

Heildarmarkaðsvirði þeirra 19 félaga sem eru á Aðalmarkaði og First North nemur nú 864 milljörðum króna, borið saman við 847 milljarða í maí.

Mikil hækkun í skuldabréfum

Mun meiri velta var með skuldabréf, eða sem nam 181 milljarði í júní. Það eru um 8,6 milljarðar sem skipta um hendur daglega.  „ Þetta er 2% hækkun frá fyrri mánuði (viðskipti í maí námu 8,5 milljörðum á dag), en 34% hækkun frá fyrra ári (viðskipti í júní 2014 námu 6,4 milljörðum á dag)," segir um þetta atriði.

Velta eftir flokkum, hlutdeild og ávöxtun voru með eftirfarandi hætti:

  • Alls námu viðskipti með ríkisbréf 164 milljörðum en viðskipti með íbúðabréf námu 9 milljörðum. Mest voru viðskipti með RIKB 19 0226, 30,7 milljarðar, RIKB 22 1026, 29,0 milljarðar, RIKB 25 0612, 27,4 milljarðar, RIKB 20 0205, 25,5 milljarðar og RIKB 31 0124, 20,9 milljarðar.

  • Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 27,1% (21,0% á árinu), MP banki með 24,5% (20,6% á árinu) og Landsbankinn með 17,0% (21,5% á árinu).

  • Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 2,3% í júní og stendur í 1.124 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 2,8% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 2,0%.