Það er óhætt að segja að flugfélagið Air Atlanta sé vel geymt leyndarmál hér á landi. Þó svo að flestir þekki nafnið hefur lítið farið fyrir félaginu hér á landi síðustu ár.

Um þetta er fjallað í ítarlegu viðtali við Hannes Hilmarsson, forstjóra Air Atlanta, í Viðskiptablaðinu.

Air Atlanta er í dag með 15 breiðþotur í rekstri, nær allar af gerðinni Boeing 747-400. Í ár hefur félagið tekið inn fimm B747-400 vélar í rekstur og skilað sex eldri vélum af gerðinni 747-200, 747-300 og Airbus 300-600. Stærstur hluti starfsemi Air Atlanta fer fram í Asíu og Mið-Austurlöndum, þá sérstaklega í Saudi-Arabíu þar sem félagið sinnir nú m.a. svokölluðu pílagrímaflugi. Hér á Íslandi starfa þó um 280 manns hjá félaginu en því til viðbótar starfa um 1.100 manns erlendis.

„Viðskiptamódel okkar gengur út á það að fljúga fyrir önnur flugfélög, sem er okkar aðalstarfsemi en við bjóðum einnig upp á leiguflug fyrir fraktmiðlara og ferðaskipuleggjendur,“ segir Hannes í samtali við Viðskiptablaðið.

Nú eruð þið með stærstan hluta af starfseminni erlendis og fljúgið ekkert til og frá Íslandi. Það liggur því beinast við að spyrja hvort ekki væri einfaldara að reka fyrirtækið erlendis?

„Það eru kostir og gallar við það að vera með höfuðstöðvar á Íslandi. Félagið á sér 26 ára sögu sem íslenskt leiguflugfélag og það var mikið frumkvöðlastarf unnið þegar félagið var stofnað og byggt upp. Við byggjum því á góðum grunni,“ segir Hannes.

„En vissulega er aukakostnaður og ákveðin óhagræðing sem fylgir því að vera svona fjarri þeim verkefnum sem við sinnum. Það kostar að ferja fólk til og frá Asíu og við missum dýrmæta vinnudaga hjá flugmönnum við að koma þeim á vinnustað. Við getum í sjálfu sér skilgreint okkur sem útflutningsfyrirtæki sem selur alla sína þjónustu erlendis. Þessi þjónusta veltir um 35 milljörðum króna og býr til 280 íslensk störf á ársgrundvelli sem skilar yfir milljarði á ári í launaskatta og launatengd gjöld til ríkisins. Þessi starfsemi er því mjög verðmæt fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Nánar er rætt við Hannes í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer Hannes yfir rekstur félagsins í þeirri miklu ókyrrð sem það lenti í eftir sameiningu við Íslandsflug árið 2005, hvernig skera þurfti niður í rekstrinum og að lokum fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem nú er á lokastigi.